top of page
  • LinkedIn
  • Grey Facebook Icon
  • Grey YouTube Icon
  • Grey Instagram Icon

Isuzu D-Max Lux með Xtra 33” breytingu frá Arctic Trucks

Isuzu Dmax - Tork Gaur

James Einar Becker

27. nóv. 2025

Isuzu D-Max hefur lengi staðið fyrir áreiðanleika og vinnugetu í pallbílaflokknum. Með 33 tommu breytingarpakka frá Arctic Trucks umbreytist D-Max í sérsmíðað ökutæki sem er sérstaklega hannað til að takast á við krefjandi aðstæður sem Íslensk náttúra getur boðið upp á.

Áfangastaðurinn er Gullkistan


Reynsluaksturinn hófst með skýru og skilgreindu markmiði um að ná auglýsinga ljósmynd ársins af sjálfu ökutækinu sem átti að ferja ökumanninn þangað. Áfangastaðurinn var Gullkista og hefst aksturinn upp að henni hjá bænum Miðdal í Bláskógabyggð. Þessi leið einkennist af ósléttum jarðvegi, aflíðandi bröttum brekkum, hrjúfu landslagi og á þessum árstíma klaka og snjó. Sem sagt fullkomið prófunarsvæði fyrir Isuzu D-Max.


Isuzu D-Max sýnir einstaka getu með torfæru stillingu (Rough Terrain Mode), lágu drifi og driflæsingul að vopni. Bíllinn fer í torfæruham og tekur á sig kröftugt klifur og heldur einstökum stöðugleika. Getan til að komast á slóðir sem eru öðrum óaðgengilegar gerir D-Max að ómetanlegu verkfæri.



Uppfærslur Arctic Trucks


Breytingarnar frá Arctic Trucks eru ekki aðeins til að auka fagurfræði. Heldur eru þetta uppfærslur sem auka verulega akstursgetu bílsins í torfærum.


Breytingarnar fela meðal annars í sér gróf 33 tommu dekk á 17 tommu álfelgum. Hækkun á fjöðrun bílsins er 20 mm sem gefur auka 33 mm veghæð. Þessar breytingar hafa til dæmis bein áhrif á vaðgetu bílsins sem eykst úr 800 mm í 833 mm. D-Max heldur einnig framúrskarandi dráttargetu sinni eða 3,5 tonn sem undirstrikar hlutverk hans sem

traustur dráttar jálkur.


Notendaupplifun


Innrétting D-Max endurspeglar einfalda og hagnýta nálgun sem beinist að ökumanni sem er nauðsynlegt í vinnu trukk. Upplýsingakerfið er skilvirkt og laust við óþarfa flækjustig. Aðgerðir eins og slökkva á aksturs viðvörunum er hægt að framkvæma fljótt með fáum skrefum á skýrt merktum valmyndum.

Stjórntæki, rofar og takkar eru stórir og hægt er að nota þá auðveldlega með hönskum á höndunum. Þessi nálgun undirstrikar enn frekar áherslu á notagildi við erfiðar aðstæður. Mælaborðið er 7 tommu skjár sem veitir skýra yfirsýn yfir nauðsynlegar upplýsingar. Það er að segja ef fólk þarf ekki meira en risa hraðamæli.

 

Grind og vélbúnaður


Isuzu D-Max byggir á hefðbundinni grind (body-on-frame) sem er valin vegna styrkleika og endingar sem nauðsynleg er í krefjandi akstursumhverfi. Fjöðrunin að aftan er með “blað” fjöðrun sem er klassísk hönnun sem hámarkar burðargetu og áreiðanleika undir miklu álagi.


Undir vélarhlífinni malar öflug fjögurra strokka 1.8 lítra dísilvél sem skilar 160 hestöflum og 360 NM af togi. Ökutækið býður upp á mikinn styrk og getu sem gerir bílinn að ákjósanlegum valkosti fyrir fólk sem krefst afkasta í krefjandi umhverfi. Hvort sem það snýr að klifri á fjallvegum eða við drátt þungra vagna.


Ljósmyndaverkefnið heppnaðist þokkalega og má sjá afköstin að neðan. Hinsvega var það sjálft ferðalagið sem stendur upp úr.




bottom of page