
James Einar Becker
7. nóv. 2025
Gleymdu öllu því sem þú hélst að þú vissir um kínverska bíla. Hér höfum við Hongqi EHS7 bílinn sem er hlaðinn af krafti, lúxus og yfirlæti. Og hann er mættur til að ögra þýsku risunum.
Ný handfrjáls skottopnun: Endalok vandræðaleikans
Hefurðu staðið inni í bílakjallara með hendur fullar af matarpokum, og veifað fætinum eins og hálfviti undir stuðara í von um að skottið opnist? Ef þú hefur prófað það þá veistu sennilega það virkar í ca 40% tilvika. Hongqi hefur hins vegar fundið snilldarlausn. Þú þarft bara að ýta á ákveðinn punkt sem birtist á jörðinni og voilà! Skottið opnast sjálfkrafa. Þetta snilldarlega smáatriði sparar þér þá niðurlægingu að líta út eins og fullkominn fáviti á fjölmennu bílastæði.
Með 643 lítra farangursrými í skottinu er nóg pláss fyrir stóra fjölskylduferð eða nokkur golfsett. Og frunkið (framskottið)? Þar er vel rúmlega pláss fyrir sex ára gamlan dreng
Kraftur og útlit
Hongqi EHS7 kemur á stórum, fallegum 21 tommu álfelgum sem líta virkilega vel út. Eiginlega plumma þær sig best þegar bíllinn er á ferð. Ekki má gleyma rauðu bremsudælunum. Bíllin skilar 619 hestöfl og 756 Nm/tog sem kemur bílnum úr kyrrstöðu í 100 á 4,1 sekúndu. Þetta nefnilega enginn venjulegur fjölskyldubíll. Þetta er kraftur sem er vandfundinn hjá þýskum bílaframleiðendum. Kannski eiga rauðu bremsudælurnar fullan rétt á sér?!
Framendinn er... í lagi. Hann er ekki nærri jafn ógnvekjandi eins og stóri bróðir hans, Hongqi E-HS9. Það er líka bíll sem lítur út eins og hann sé að fara að refsa þér eða eitthvað sem Al Capone hefði keyrt. EHS7 er mun siðmenntaðri. Hann er með fínni rauðri línu á miðju húddinu sem gefur honum karakter, og virkilega vel hönnuð framljós sem jafnvel Lexus væri stoltur af. En hann lítur best út á ská aftan frá. Bíllinn er tvílitur og er svartur að ofan og hvítur að neðan. Hann er með svörtum hjólbogum og flottum spoler á skottlokinu. Hann er eiginlega alvöru augnakonfekt.
Lúxusinn að innan
Í innréttingu bílsins finnurðu engar glansandi svarta "fingrafarasegla" á mælaborðinu. Í staðinn finnur maður vel gert efni sem með ál áferð. Plássið í aftursætinu er gjörsamlega „fáránlegt“, Það eru sennilega 30 cm frá hnjám að framsæti. Þú getur meira að segja lagt fæturna í kross án vandræða. Og til allrar hamingju þá eru sætin öll upphituð (jafnvel aftursætin!), framsætin koma svo með kælingu og nuddi
Hljóðkerfi EHS7 kemur ekki lítið á óvart og er með 19 hátölurum og 8 tommu bassaboxi. Hljómurinn minnir helst á dýrt Burmester kerfi.
Napster í bílnum?!
Eitt það skrýtnasta við afþreyingarkerfið er að það er með Napster appi. Það er eitthvað sem fæstir hafa notað síðan árið 1999. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort Lars Ulrich (Metallica) viti af þessu.
Kínversk ábyrgð og verð
Ekki afskrifa Hongqi sem "eitthvað óþekkt kínverskt merki." Hongqi er elsti bílaframleiðandi Kína og hefur smíðað b íla síðan 1958. Þú færð 5 ára verksmiðjuábyrgð og 8 ára ábyrgð á rafhlöðunni.
Þegar kemur að verðinu þá er það þar sem EHS7 toppar sjálfan sig. Fyrir 6.990.000 kr. (með ríkisstyrk frá orkusjóð) færðu þennan pakka af krafti, lúxus og tækni. Það er verð sem er nánast hlægilegt í samanburði við samkeppnina frá Þýskalandi.
Kynntu þér málið á hongqi.is





















