
James Einar Becker
21. nóv. 2025
BMW iX xDrive45 er „andlitslyft“ útgáfa af gamla BMW iX 40. Útlitslega séð er ekki mikill munur á BMW iX 45 samanborið við gamla iX 40. Að innan lítur bíllin út mjög svipað og iX 40 og að utan eru breytingarnar mjög lúmskar en þó sjáanlegar ef maður veit hvar á að leita.
Lúmskur Botox
Stærsti munurinn er á framhluta bílsins. Hann hefur í raun fengið smá Botox. Nýrun eru enn stór, en nú er hægt að lýsa þau upp með fallegri LED útlínu sem vefjast utan um nýrun til að tryggja að allir sjái þig í myrkri. Það er mikilvægt þegar þú ert BMW ökumaður að allir aðrir viti að þú ert BMW ökumaður. Bíllinn er einnig með ný framljós. Og eins og allir aðrir BMW bílar í sögu bílaframleiðandans sem hafa fengið andlitslyftingu er bíllinn með nýjan framstuðara. Og eins og svo oft vill verða þá lítur hann betur út en sá gamli.
Það er hægt að velta því fyrir sér hvort þessi stóru nýru séu jafn umdeild og fólk vill meina. Af því að sennilega má líta á þau sem stöðutákn. Vegna þess að það er engin leið að þú getir keyrt glænýjan BMW með stórum nýrnagrillum nema þú hafir peninga til að kaupa glænýjan BMW með stórum nýrnagrillum.
Annað sem er áhugavert við framgrillið eða framnýrun er að það er sjálfgræðandi. Ef þú færð rispu eða steinn lendir á þeim, mun það græða sig sjálft. Og ef rispan er of stór ferðu með hann til umboðsins og laga bílinn einskonar hitabyssu sem getur sléttað það út. Þetta eru galdrar!
Afköst og tæknilegar breytingar
En til hvers er andlitslyfting ef þú sérð hana ekki í raun? Stærsti munurinn á þessum bíl og forvera hans er stærð rafhlöðunnar. Rafhlaðan í gamla i iX 40 var um 72 kWh. Á meðan þessi bíll er með glænýjan rafhlöðupakka sem skilar betri afköstum og er um 98,4 kWh.
Þessi bíll er einnig með nýja og endurbætta varmadælu sem þýðir að þegar veðrið verður kalt og stormasamt mun drægnin ekki minnka mikið samanborið við gamla bílinn. Gamli iX 40 átti það til að missa drægni getun ef það varð of kalt. Þessi bíll ætti ekki að hafa það vandamál. Einnig hefur BMW endurhannað hjólalegurnar í þessum bíl, sem þýðir að það er minni mótstaða þegar ekið er áfram. Með stærri rafhlöðu, nýju hitadælunni og nýjum hjólalegum ætti þessi bíll að geta keyrt um 680 km á einni hleðslu (WLTP). Bíllinn er fjórhjóladrifinn og skilar 480 hestöfl og 700 Nm í togi. Það þýðir að hann fer úr núll í 100 á 5,1 sekúndu.
Samanburður við iX xDrive60
Þú getur líka fengið BMW iX 60 útgáfu af þessum bíl og er hann með enn stærri rafhlöðupakka en iX 45. Sá rafhlöðupakki er 119 kWh og er bíllinn með um 544 hestöfl og 765 Nm í tog. Hann er líka fjórhjóladrifinn og fer úr 0 í 100 á 4,6 sekúndum, sem er 0,5 sekúndum hraðar en iX 45. En það þýðir líka að drægnin í iX 60 er um 100 km meiri en í ix 45. IX 60 útgáfab kostar um 2,5 milljónum íslenskra króna meira en þessi bíll. IX 45 er verðlagður á 15.990.000 íslenskar krónur á meðan iX 60 er verðlagður á 18.590.000.
Felgur og fjöðrun
Þessi tiltekni iX 45 kemur með 21 tommu álfelgum, en þú getur líka eytt aðeins meiri peningum og keypt 23 tommu álfelgur. IX 45 bíllinn kemur með venjulegri hefðbundinni fjöðrun en ef þú velur iX 60 geturðu fengið hann með sjálfstillandi loftpúðafjöðrun.
Innanrými
Upplýsinga- og afþreyingarkerfið í þessum bíl er fullkomlega fínt. Ekkert lagg og bregst virkilega vel við öllum aðgerðum. Hægt er að færa forritatáknin til eftir því hvaða forrit þú notar mest, o.s.frv.
Bíllinn er líka með nudd í framsætunum. Hér getur þú valið á milli virkjunar, slökunar, endurlífgunar og hressingar. Þetta er ekki nudd sem kýlir þig í bakið með berum hnefa. Þetta er meira slakandi. Það sefar þig á meðan þú svífur áfram eftir þjóðvegunum.
Smíði og aksturstilfinning
Þegar þú opnar hurðirnar á þessum bíl er mikið af sýnilegum koltrefjum (carbon fiber) og er það gert til að halda þyngd bílsins niðri. Það er áhugavert þar sem bíllinn vegur nú þegar 2,5 tonn. Það fær mann til að hugsa, hversu þungur hann væri ef þetta væru ekki koltrefjar? Það jákv æða er samt að koltrefjar er mjög sterkt efni.
Fjöðrunin er stíf, eins og hún á að vera í BMW. Það er í raun erfitt að skilja hvernig BMW tekst að flytja aksturseiginleikana á milli bíla með mismunandi orkugjafa. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða dísel, bensín, tengiltvinnbíl eða rafbíl. Þeir haga sér alltaf nokkurn veginn eins og BMW.
Það er augljóst að það er setið í lúxusbíl. Sérstaklega þegar farið er neðar í innréttingunni. Þar er ekki að finna neitt ódýrt eða rispulegt plast. Allt efni þar er mjúkt viðkomu. Jafnvel efnið á hurðinni sjálfri er örlítið mjúkt.
Í miðjustokknum er hið vel þekkta BMW iDrive kerfi. Það jákvæða við alla nýja BMW bíla er að þeir eru allir með sama iDrive kerfinu og sama upplýsinga- og afþreyingarkerfinu. BMW hefur þróað þetta iDrive kerfi í yfir 20 ár eða frá 2004 og er það orðið mjög gott og þróað. Þrátt fyrir að afþreyingarkerfið sé með snertiskjá þá leitar höndin oft í hið goðsagnakennda snúningshjól. Mögulega vegna þess að það er það sem ökumaðurinn er vanur. Einnig er lítil geymsla fyrir farsímann og ef þú þarft að hlaða símann geturðu gert það þráðlaust fyrir neðan.





















